Þjóðareign - Skilgreining

Komist ég á stjórnlagaþing þá mun ég berjast fyrir því að auðlindir verði í almannaeigu. Því hef ég sett fram skilgreiningu á þjóðareign í fjórum liðum.

Þjóðareign 1.gr.
Þjóðareign er skilgreind eign íslensku þjóðarinnar.  Hana má aldrei selja, hvorki einstaklingum né lögaðilum.  Þjóðareign má aldrei framselja til erlendra ríkja né erlenda stofnana.  Alþingi Íslendinga hefur umsjón með eignum sem eru skilgreindar í þjóðareign og hafa Ríkisstjórn Íslands og Alþingi hvers tíma heimild til að ráðstafa nýtingu og notkun á þeim auðlindum með samþykkt Alþingis. Langvarandi notkun eða nýtingaréttur skapar ekki eignarétt og ekki er hægt að gera kröfu á að nýtingaréttur erfist.  Ekki er heimilt að veðsetja þjóðareign. 

Þjóðareign 2.gr.

Skilgreining. Undir skilgreiningu á þjóðareign, eru t.d.

a.  sjávarauðlindir, stofnveitur, vatns og orkulindir

b.  olía, gull, silfur, salt eða önnur efni sem finnast kunna í jörðu. 

c.  andrúmsloft og regnvatn

d.  annað sem Alþingi samþykkir með lögum

Þjóðareign 3.gr.

Nýtingaréttur á þjóðareign skal ákveðinn í lögum.  Gæta skal meðalhófs þegar samið er um tímalengd á nýtingarétti.  Ekki má úthluta rétti sem brýtur gegn öðrum lögum eða alþjóðlegum samningum og samþykktum.  Alþingi skal taka gjald fyrir notkun á auðlind og skal það renna í ríkissjóð.  Handhafi nýtingaréttar má ekki framselja þann rétt, heldur skal skila ónýttum rétti.

 Þjóðareign 4.gr.

Ekki er heimilt að breyta skilgreiningu á þjóðareign eða nýtingarétti, að hluta eða heild nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.  Halda skal þjóðaratkvæðagreiðslu sérstaklega vegna þeirra breytinga og kosið um það eitt og annað ekki.

Í greinagerð sem er að finna á heimasíðu minni peturoli.com kemur m.a. fram

,,Hér er tekið á þeim auðlindum sem falla undir skilgreininguna á þjóðareign.  Hugmyndin að þessari grein er að taka af allan vafa hvað fellur undir sem þjóðareign.  Ekki er nóg að skilgreina hvað sé þjóðareign, heldur þarf að skilgreina líka hvað fellur þar undir''

 Bestu kveðjur,

Pétur Óli Jónsson - 9497 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband